Pakki pakk

Þjóðhátíðardagurinn fór í undirbúning fyrir ferð okkar heim til Íslands.

Ég fór í þriggja daga vinnuferð upp til Rundu í norðaustur Namibíu í vikunni, sem gekk svona glimrandi vel fyrir mína vinnu. Ég talaði við fólk í opinbera geiranum og í þróunarsamvinnu innan vatnsgeirans. Tók m.a. þátt í námskeiði til að þjálfa fólk í samfélögunum til að greiða úr vandamálum tengdum vatnsverkefnum á eigin forsendum. Þetta var bráðskemmtilegt, því þátttakendur voru svo skapandi, mótuðu leikþætti til að setja á svið ólík vandamál sem þau þekkja af eigin raun og hvernig mátti nota ólíka leiðtogahæfileika til að leysa úr vandamálunum. 

"Þær tvær eru konur að koma að sækja vatn. Þessi er umsjónarmaður brunnsins. Þessir tveir eru kúasmalar. Þessi er eigandi barsins."

Svo hófst leikþátturinn. Vandamálið var að kúasmalarnir tóku allt vatnið frá konunum, og að umsjónarmaðurinn var latur og hékk á barnum. Eigandi barsins var alveg vitlaus þegar átti að ná umsjónarmanninum út að brunni til að opna fyrir vatn - fólk ætti ekki að taka frá honum besta viðskiptavininn, hvernig ætti hann þá að eiga til hnífs og skeiðar. Við hlógum okkur öll máttlaus, þó að mestu væri talað á Kavango máli og túlkunin upp og ofan. Lausnin fólst í að umsjónarmaðurinn ætti ekki endilega að hætta að drekka áfengi, heldur mætti hann bara drekka á kvöldin og tryggja að allir fengju réttlátan aðgang að vatni á daginn. Þau voru mikið fyrir málamiðlanir, þetta var trúlega mjög raunhæf lausn. Allir héldu sínu og réttlæti tryggt.

Eins og gerist ætíð þegar ég bregð mér frá búi, þá var Halli veikur, og er búinn að vera frá skóla í viku. Það er amk. heppilegt að HM er í gangi svo að hann getur fylgst vel með.  Við fórum enn og aftur til læknis í dag sem var með mikinn áhuga á genum Íslendinga, eins og fleiri. Hann fræddi okkur einnig á því að yfirstandandi rannsókn sýnir einhverjar tilteknar vændiskonur í Naíróbí geta ekki smitast af eyðni. Það sé trúlega genetískt. Verst er að þær eru drepnar af glæponum eins og fleiri í þessari starfsgrein, vísindamönnunum til mikils ama. Þeir gera ekki greinarmun á milli góðra gena og slæmra.

Skólanum er að ljúka, og allar einkunnir komnar í hús. Stefán gerði þessa fínu mynd sem átti að endurspegla sjálfið, þar sem mátti sjá hann vera að læra heima og bræður hans voða sætir að hjálpa honum af því að hann er svo lítill. Aðspurður sagði Stefán hins vegar að þetta væru kindur og gerði pabba sinn þar með alveg ruglaðan.
Halli greindi heildarniðurstöðurnar og telur að Óskar standi sig best akademískt, þá hann sjálfur og loks Stefán. Hegðurnarlega sé staðan hins vegar þveröfug, Stefán standi upp úr, þá Halli og Óskar reki lestina. Hann er með ágætis greiningarhæfileika, drengurinn.

Við höldum heim til Íslands á morgun, pökkun er í fullum gangi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband