Þjóðargersemin Etosha


Etosha 4
Við heimsóttum Etosha þjóðgarðinn, þjóðargersemi Namibíu. Þegar garðurinn var stofnaður upp úr aldamótum var Namibía þýsk nýlenda. Þá var hann á stærð við Ísland og var stærsti þjóðgarður heims. Í dag er hann er rúmlega 22 þús. km. Leiðsögubækurnar segja að hann sé hvað besti staður Afríku til að sjá villt dýralíf, og það er efalaust ekki ofsagt.
 

 
  

Etosha 8
Ferðalangurinn hefur nokkuð frjálsar hendur því að þarna getur maður keyrt um (á vegum, að sjálfsögðu) að vild, þó að ekki megi fara út úr bílunum af augljósum ástæðum. Enginn vill jú vera étinn af ljónum. 
 
Dýrin hafa vanist umferð og maður kemst mjög nálægt þeim, eins og sjá má. Myndirnar gefa lítilsháttar innsýn inn í hvað má upplifa í Etosha.

Umferðin var lítil enda var aðal ferðamannatíminn ekki hafinn. Maður fær aðeins á tilfinninguna að vera einn í Eden.
 
 
 
Ethosa 1
Mikill hluti þjóðgarðsins einkennist af saltþöku en þarna var mikið vatn til forna, sem verður svo aftur til yfir regntímann. Hann var óvenju gjöfulur í ár, svo að hún var enn þakin vatni þegar við áttum leið hjá. San sagnir segja að vatnið hafi orðið til er kona missti barn sitt og grét hún svo óstjórnlega að risastórt vatn myndaðist og saltið úr tárum hennar varð eftir þegar tárin þornuðu. Sú skýring hentar okkur Íslendingum náttúrulega miklu betur en einhverjar skraufþurrar landfræðilegar skýringar.
 
 
 
 
 
 
 
 
 
  
Etosha 9
Við sáum einnig sjakala og fjölda antílópa og þessa jarðíkorna sem eru frændur þeirra sem hafast við í bakgarðinum hjá okkur. Þá er fuglalíf afar ríkt, ekki síst þegar það er enn vatn á saltþökunni. Mikið er um strúta, sem eru mjög flottir.
 
Fyrstu nóttina gistum við utan við garðinn, og gátum því notað heilan dag inni í garðinum. Svo gistum við í Halali, sem er kampur í miðjum garðinum. Þar var alveg fyrirtak að vera, og við hvern gististað eru vatnsból sem dýrin koma að til að svala þorstanum. Fólk situr andaktukt og bíður eftir að dýrin birtist út úr runnagróðrinum, og segir ekki orð því að hávaði getur vitanlega fælt dýrin burtu.
 
 
 
Etosha 10
Við kíktum á vatnsbólið þegar sólin var að setjast. Það fyrsta sem Óskar gólaði með sinni einstaklega sterku rödd var: MAMMA, SJÁÐU, ÞARNA ER SUNDLAUG!!! og benti að vatnsbólinu. Við hlutum ófá illskuleg augnaráð frá þeim gestum sem voru þarna komnir til að berja dýrin augum. Sumir eru þarna tímunum saman og koma með kaffi á brúsa til að halda sem lengst út.

Við sáum því að þetta væri kannski ekki alveg hentugasti staðurinn fyrir blessaða drengina, en á myndinni er sólin að ganga til viðar og drengirnir að mæna út á afrísku sléttuna við vatnsbólið.




Etosha 3
Við skiptum aðeins liði um kvöldið og Andra og Haddi fóru upp að vatnsbóli á meðan við vorum með drengjunum. Þau sáu nashyrning. Við Dabbi fórum svo saman, og sáum ekkert nema hvort annað og kappklædda þýska túrista. Það var engu líkara en að þeir væru allir að fara í jöklaferð á Íslandi, í goritex með húfur og hanska. Þetta var á laugardagskvöldi og í næturhúminu barst þessi fína partýtónlist frá hýbýlum þjónustufólksins sem var þó í nokkurri fjarlægð, ekta afrískur söngur.



Ethosa 2
Seinni daginn notuðum við til að koma okkur í rólegheitum út úr garðinum og við síðasta vatnsbólið sem við stoppuðum var 16 fíla hjörð og gíraffar í massavís. Fílsungarnir eru ótrúlega flottir.

Það er nú dálítið skrýtið að sjá þessi massífu dýr drekka, og það án mikilla láta. Við vorum nokkuð nálægt, og vorum að bisast við að halda þögn í bílnum. Við gáfum drengjunum snakk og nammi að maula, og eftir smástund var farið að hrópa NAMMI!....súpa!... hvar er geimbojinn minn? -Maður sá fyrir sér að annað hvort myndi öll hjörðin flýja út í buskann eða að óður fíll kæmi að trampa á bílnum með geimboj og öllu.



Etosha 6Til þess kom þó ekki og þessi glæsilegu dýr drukku nægju sína og hurfu svo á brott, ótrúlega hljóðleg.
 
Á leiðinni út um norðurhliðið voru miklar hjarðir af dýrum á sléttunni, m.a. af wilderbeest, sem eru glæsileg dýr. Ég bjóst hálfpartinn við að nafni hans Dabba, Attenborró myndi spretta upp úr skrælnuðu grasinu segjandi... here, midst in unspoiled Namibia these manificent animals graze under the burning African sun.... 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Erla. Það er ekkert smá gamana að lesa þessa pistla. Ég skellti allavega tvisvar uppúr yfir þessum. Hafði einmitt mestar áhyggjur af geimbojinum er fíllinn hefði ráðist á ykkur.

Harpa í fríi (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 23:54

2 identicon

ha ha ha já ég tek undir þetta hjá Hörpu - sit hérna ein á skiptiborði Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og skellihlæ

Ása Dóra (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 11:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband