Operation Red Wasps

Í gærkvöldi eftir sólsetur hófst aðgerðin rauðar vespur.

Neðst í garðinum hafa rauðar vespur verið að hreiðra um sig, og af þeim sökum höfum við ekkert verið að nota neðsta hluta garðsins. Þetta eru skaðræðiskvikindi, og stungur þeirra eru víst sérstaklega sársaukafullar. Ein namibísk vinkona okkar sagði... Já, einmitt. Rauðar vespur. Við segjum eiginlega ekki að þær stingi, heldur bíti, því það er svo sárt!

-Við Frónbúar erum nú sérstaklega varkárir varðandi skorkvikindi, og við vildum helst að garðyrkjumaðurinn sæi um vandamálið. (Það er garðyrkjufyrirtæki sem sér um garðinn, en það er innifalið í leigunni). Hann er víst búinn að vera að humma það fram af sér í mörg ár, enda eru allir logandi hræddir við þessi kvikindi. Húshjálp sem starfaði í húsinu fyrir nokkru síðan sýndi mér ljótt ör sem hún hafði fengið eftir eina stungu, en hún stokkbólgnaði á allri hendinni. Vespurnar hafa sumsé verið þarna í mörg ár, og við ákváðum því að taka til okkar ráða. Vanalega eru vespubúin brennd þegar myrkur er, því þá eru þær allar í rólegheitum inni í búinu.

Við hjónin röltum því niðureftir í myrkrinu í gærkveldi, vopnuð löngum kyndli, tveimur gerðum af skordýraeitri, grillvökva, stiga, grillbakka og slökkvitæki (allur er varinn góður). Búin reyndust vera þrjú, og við byrjuðum á að eitra þau í bak og fyrir (las svo reyndar á netinu að þessi kvikindi væru sérstaklega þolin gagnvart skordýraeitri, en það var bara gott að við vissum það ekki). Svo klipptum við búin niður, létum þau detta í grillbakkann, úðuðum grillvökva yfir og kveiktum í. Það logaði vel, og það voru bara tvö kvikindi að þvælast eitthvað í kringum búin, sem við kveiktum í með kyndlinum.

Aðgerðin heppnaðist því með ágætum og við erum hæstánægð með árangurinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þið eruð hetjur, ég er hætt að vorkenna mér sem gjarnan er bitin af mýflugum.  Rauðar vespur, hljómar hættulega, gæti jafnvel verið góður titill á sögu, sem allaveganna endar vel ef þið eruð söguhetjurnar.

Brynja (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 13:11

2 identicon

Voða fannst mér vanta í söguna hvað Davíð var hræddur en þú hvergi smeik. Fannst það meira í þínum anda.

 Annað hvort er Dabbi orðinn Braveheart eða þú svona meðvituð um fjölmiðilinn! 

Harpa skarpa (IP-tala skráð) 7.7.2008 kl. 23:46

3 identicon

Hahaha, já það hefði verið undir venjulegum kringumstæðum, enda miklu fyndnara. Það sem vantaði í þessa sögu var hvað Dabbi var búinn að hesthúsa mörgum bjórum og ég miklu hvítvíni! Það er trúlega ástæðan fyrir því að við vorum alls ósmeyk, bæði tvö! Dabbi var hins vegar Braveheart og leiddi þennan leiðangur. Á venjulegum degi er ég skíthrædd við þessi kvikindi...

Erla perla (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 11:19

4 identicon

Æi, gott hvað hvítvínið er megrandi en bjórinn fitandi. Þú kemur út úr þessu þvengjmó en hann eitthvað annað!!!

Dabbi, þú ert hetja! 

Harpa (IP-tala skráð) 9.7.2008 kl. 00:06

5 Smámynd: Arnheiður Fanney Magnúsdóttir

ÉG hef alltaf sagt það "þið eruð snillingar"

Arnheiður Fanney Magnúsdóttir, 11.7.2008 kl. 16:38

6 identicon

Ji minn eini þvílíkt hugrekki. Ari veltir fyrir sér hvort þetta hafi ekki reynt á taugarnar. Ég sit einmitt hér öll útbitin af einhverjum sænskum kvikindum - líklega þó saklausustu grey í samanburði við namibískar skaðræðisgeitunga.

Ásdís og Ari (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 09:14

7 identicon

jiiiidúddamía...........þvílíkir ofurhugar!!!

Ása Dóra (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 11:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband