Twyfelfountain

 
Twyfel2Við keyrðum frá Opuwo niður til Twyfelfountain á einum degi. Þetta er í útjaðri Kunene héraðsins, en það er að stórum hluta illfært. Hér gefst ferðalöngum færi á að sjá villt dýr í eiginlegum heimkynnum sínum, þar sem þau ráfa frjáls um, en það eru ekki margir staðir í Afríku sem geta boðið upp á slíkt. Á flestum stöðum fara ferðalangar inn fyrir mörk þjóðgarða þegar skoða á villt dýralíf. Við sáum fjöldan allan af sebrahestum (sumir gætu hafa verið eyðimerkursebra, við vorum bara ekki nógu fróð til að þekkja þá í sundur), antílópum af öllum gerðum, strúta og svo sjakala. Stjórnun villts dýralífs þarna er mjög áhugaverð, en doktorinn getur sagt áhugasömum allt um það, þar sem hann gerði mastersrannsókn sína í auðlindafræði á þessum slóðum, einmitt um slíka stjórnun.

Við stoppuðum ekki oft á leiðinni, en hér eru Halli og Kári reyndar í stoppi við vegaskilti þar sem við snæddum nesti og gáfum ferðalangi líka í svanginn.



Twyfel1

Landslagið breyttist mikið á leiðinni, er mjög myndrænt og opið og var oft glettilega líkt Íslandi, en maður hefur að sjálfsögðu tilhneygingu til að bera það saman við það sem maður þekkir best.

Við vorum mjög heppin en þegar við komum á áningarstað í Twyfelfountain, þá voru eyðimerkurfílar að fá sér að drekka við vatnsbólið. Þeir eru afbrigði af sléttufílum (African bush elephants), og þola þurrk sérstaklega vel. Ég las nú einhvers staðar að þeir væru líka eilítið stærri, og það þýðir væntanlega að þetta eru stærstu landdýr veraldar. 

Þarna er ævintýralega fallegt.

 

Twyfel3

Gististaðurinn var líka ævintýri líkastur, hér eru strákarnir að nýta  síðustu geisla síðdegissólarinnar, og eru að skella sér út í sundlaugina.

 

 

 

 

 

 

Twyfel4

Twyfelfountain þýðir ótryggur brunnur, en þarna er vatnsból sem þornaði upp yfir þurrkatímann. Staðurinn er þekktastur fyrir steinristur sem gerðar voru af San fólki fyrir um 5 til 20 þúsundum ára. San fólkið er eini hópurinn í Namibíu sem hefur stöðu frumbyggja í landinu, þrátt fyrir þann fjölda hópa sem nú byggja landið. Staðurinn er nú friðlýstur og er þetta líkt og að koma í risastórt safn sem er utandyra. 

Steinristurnar segja ýmsar sögur, og hafa varðveist ótrúlega vel í allan þennan tíma. Þegar maður sér ummerki um þessa fornu menningu fer maður ósjálfrátt að velta fyrir sér stöðu San í namibísku samfélagi í dag, en þeir staða þeirra er mjög bágborin. Meira um það síðar.

 

Twyfel5 Sumir höfðu nú meiri áhuga á að skoða smásteina og leika með þá en einhverjar æfagamlar myndir á steinum.

 

Þrátt fyrir að nú væri vetur var góður hiti þarna, enda er þetta eiginlega eins og ofn þarna í eyðimörkinni. Leiðsögukonan sagði okkur að hitinn færi yfir 50 stig á sumrin.  Ég hygg að það væri nú aðeins of mikið fyrir viðkvæma Frónbúa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

vá þetta er svo óraunverulegt og fallegt, gerir ekkert annað en espa upp í mér Afríkubakteríuna.  Ég hefði viljað gefa handlegg fyrir að skoða  og handleika þessar steinaristur, stórmerkilegt að sjá margra milljóna ára ummerki og ekkert lítið inspererandi fyrir listaverkssálina

Brynja (IP-tala skráð) 16.7.2008 kl. 19:00

2 identicon

Gaman að fylgjast með frásögum ykkar og myndum - þú ert snilldarpenni.  

Þetta er greinilega ótrúlega fallegt og spennandi land, ég var að klára master í þróunarfræðum - vantar Doktornum ekki starfskraft á svæðið?

kv. Dísa from the hood 

Dísa (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 16:14

3 identicon

ég tek nú undir það að þetta er með ólíkindum fallegt og órauverulegt að sjá ykkur þarna öll - sérstaklega strákana - í allt öðru umhverfi en heima í garðinum í Stuðlaseli!!!!

ég hef greinilega ekki kíkt hingað inn í svolítinn tíma - þarf að lesa mig aftur í tímann og sjá hvað þið hafið verið að bardúsa - ég sendi þér svo mail á netfangið þitt varðandi neyðarkallið hehe.........fjésbókin er eitthvað biluð ;)

 ástarkveðjur til ykkar allra - ég get ekki beðið eftir að koma og heimsækja ykkur - var einmitt að segja að ég slæ mér bara lán til þess - ekki hægt að sleppa svona frábæru tækifæri!!!!

Ása Dóra

Ása Dóra (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband