Óhefðbundin þróunaraðstoð og hefðbundin þróunarsamvinna

Já, það er örugglega margt mjög jákvætt sem kemur út úr því að vera rændur svona. Maður getur litið á þetta sem óhefðbundna þróunaraðstoð. Nú eru kannski einhverjir uppi í Angóla sem geta þrautnýtt tölvurnar okkar, annar sem lærir íslensku með hjálp stafakarlanna, myndavélin heldur áfram að taka fjölskyldumyndir þarna uppfrá, samskipti stórbatna með svona fínum símum og einhver tekur kannski upp á því að hlaupa eftir að hafa fengið hlaupaúrið í hendurnar (verst að leiðbeiningabæklingurinn og púlsmælirinn fylgdu ekki með). Veit hins vegar ekki hvaða gagn litli Calvin gerir annað en að mæla tímann, sem er nú oft á tíðum mjög afstæður hér, allir vísa til Africa time, en ég útskýri það nú kannski betur seinna.

Svo urðum við nú hissa í dag. Nágranni okkar einn hringdi bjöllunni og kom færandi hendi. Hafði þá ekki verið brotist inn hjá honum í nótt og hann fór sjálfur að leita að þýfinu. Við búum eiginlega í Öskjuhlíðinni, í hlíðum góðrar hæðar sem er yfir miðbænum og efst tróna vatnstankar. Þessi nágranni okkar var betur inn í málum en við og betur inn í málum en lögreglan. Hann fór að leita að dótinu sínu í hlíðinni, þar sem eru gróður og göngustígar (sem enginn þorir að nota nema ég og mamma og Halli) og þarna hafa glæponar hreiðrað um sig. Nágranninn hafði sumsé fundið tölvuna sína sem stolið hafði verið, og hafði verið geymd í steyptu röri til að skýla fyrir rigningunni. Lögreglan fer nefninlega rúnt þegar innbrot hafa átt sér stað og innbrotsþjófar fela því stundum þýfið og sækja það seinna. Ég hugsaði með eftirsjá til tölvanna okkar, en þær voru á bak og burt. Hins vegar var innihald peningaveskis Dabba þarna eins og það lagði sig, og fékk hann því til baka ökuskírteini, aðgangskort að vinnunni, namibískt kennikort og svo öll kredit og debitkortin sín (en þeim var öllum búið að loka).

Svo þurfti nágranninn að fara að laga aftur rafmagnsgirðinguna sem er í kringum húsið hans, en hann var að vonum glaður að hafa endurheimt tölvuna sína. Síðan á laugardag hefur fólk náttúrulega dælt í okkur linnulaust sögum um innbrot og glæpi af öllu tagi.

En aftur að þróuninni. Hér er svo umfjöllun um hefðbundnari þróunarsamvinnu sem Davíð er að vinna við, en þeir voru að hefja fullorðinsfræðslu fyrir heyrnarlausa í Namibíu: http://www.iceida.is/frettir/nr/979


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband