Hjá laganna vörðum

Þegar Leja kom á miðvikudagsmorguninn hafði hún lesið frétt í blaðinu sem skýrði frá því að tveir menn hefðu verið handteknir í Windhoek og að þeir hefðu haft 6 fartölvur í fórum sínum. Þetta varð til þess að ég fór á stúfana, og naut dyggrar aðstoðar Rudiger bílstjóra. Við fórum á lögreglustöðvar til þess að kanna hvort að tölvurnar hefðu nokkuð komið í leitirnar. Við byrjuðum á að fara í miðbæjarstöðina. Geymsla fyrir muni var í sérhúsnæði aðeins fyrir aftan lögreglustöðina. Það var líkt og maður væri að koma inn í gamla geymslu fyrir varahluti í bifreiðar, en þarna var draslinu haugað upp á hillur, og allt virtist vera rykfallið. Var af ýmsu að taka, gömul hjól, hjólbarðar, hátalarar og svona má lengi telja. Allt virtist vera komið vel til ára sinna. Ég var svo uppnumin yfir þessu öllu að ég tók ekki eftir því að byrjun að ég stóð ofaná þessari myndarlegu sveðju. Þarna hefði mátt kalla til bókasafnsfræðing til að flokka dótið almennilega. Ekki voru tölvurnar okkar þarna, og reyndar ekki neinar tölvur yfirleitt.

Næst lá leiðin í lögreglustöðina í Katutura, fátækrahverfinu. Þar var nú þröng á þingi, fjöldi manns sem var í varðhaldi í móttökunni. Allt upp í 5 manns handjárnaðir saman og svo starfsfólk lögreglu innanum að taka skýrslur og sinna skriffinnsku. Geymslan reyndist vera niðri í kjallara svo að leiðin lá framhjá gæsluvarðhaldsklefunum. Það var nú ekki skemmtileg sjón og enn verra fyrir lyktarskynið því að úr klefunum kom megn óþefur. Í kjallarageymslunni sat vörður sem stytti sér stundir við að horfa á stolið sjónvarp og var mjög hjálplegur þegar við komum og trufluðum þessa iðju hans. Þarna var enn meira úrval af dóti, og meira að segja heill kassi af sveðjum. Þarna voru einnig nokkrar tölvur, en okkar tölvur var hvergi að sjá. Við skildum þó eftir símanúmer ef þær myndu koma í leitirnar.

Að lokum fórum við á lögreglustöð í Wanaheda, litlu hverfi útaf Katutura. Þar hittum við fyrir mjög frjálslega vaxna lögreglukonu sem var einstaklega þreytt. Hún blaðaði dauflega í skráningarbók og reyndi að skilja hvernig málið lá eftir að við höfðum farið í gegnum þetta með henni:

.. svo það var brotist inn hjá ykkur núna á síðasta laugardag? 
-já, það er rétt
..og svo var málið kært til lögreglu á sunnudag?
-já, það er rétt
..og hvaða sunnudag var það svo?
-??!??

Nóg var af vopnum sem gerð höfðu verið upptæk, en engar tölvur svo að við fórum heim tómhent, en reynslunni ríkari. Það má amk. draga þann lærdóm af þessari ferð að maður eigi fyrir alla muni að forðast að lenda í haldi lögreglunnar í Windhoek.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband