Fréttir úr fátækrahverfinu

Maður þarf stundum hálfgerða áfallahjálp þegar maður les staðarblöðin. Frásagnir af glæpum eru mjög lýsandi, og sérstaklega er gert í því að hafa eftir innihald krufningaskýrslna sem eru með eindæmum óhuggulegar. Atburðirnir standa eftir ljóslifandi. 23ja ára, tveggja barna móðir var dregin frá hópi vina út í myrkrið þar sem þær voru að koma út af bar í Windhoek, hún hrópandi við vina sinna "hjálpiði mér, ég verð drepin". Svo var henni nauðgað af fjórum og hún kyrkt í kjölfarið. Nú standa yfir réttarhöld og blöðin gefa manni þessar lýsingar í smáatriðum. Frásagnir af ofbeldisglæpum eru reyndar erfiðir fyrir viðkvæmar sálir yfirleitt og að auki kemur Leja síðan með sögur úr fátækrahverfinu sem eru ekki síður krassandi.

Ofbeldi gegn konum og börnum er mjög algengt, en hún sagði mér frá því þegar lítil stelpa vinkonu hennar var að skreppa í búðina um daginn til að kaupa mjöl. Þetta var um kvöldmatarleytið. Sex ára kríli. Einhver glæpon réðst á hana, dró hana inn í runna, tróð fingrum inn í hana svo úr blæddi, braut bjórflösku og var að fara að beita henni þegar einhver skarst í leikinn. Glæponinn forðaði sér. Ég var alveg miður mín, og spurði hvernig vesalings móðurinni hefði eiginlega liðið.
"Ja, við ætluðum nú aldrei að finna hana. Hún fannst svo á barnum". 
Allamáttugur, sagði ég, hún hefur örugglega verið alveg miður sín. Maður finnur örugglega til máttleysis að geta ekki varið börnin sín frá svona viðbjóði.
"Já, hún var mjög leið. Hún fór svo aftur á barinn til að hressa sig við."

Samúð mín með móðurinni snarminnkaði, en hugurinn staldrar við hjá blessuðum börnunum sem alast upp við slíkar aðstæður. Svo er spurning um hvort að hið saklausa, íslenska sálartetur venjist þessu eða ekki (efast nú reyndar stórlega um það), en amk. fer maður betur að skilja gleði fólks þegar lögreglan lætur til sín taka. Þeir skutu þjóf þar sem hann kom út úr verslun um daginn, og uppskáru velþóknun margra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband