Ægifegurð Epupa fossa

Við vorum mjög spennt þegar við fórum að skoða Epupa fossa í Kunene ánni, enda fræddi leiðsögubókin okkur á því að mörgum finndust fossarnir fegurri en Viktoríufossar sjálfir, sem eiga þó að vera eitthvert mesta náttúrundur Afríku. Ég á enn eftir að sannreyna það, en hins vegar eru Epupa fossar dýrðlegir eins og sjá má. Við Íslendingar köllum nú ekki allt ömmu okkar í fossamálum, en hafa ber í huga að ekki hefur rignt jafn mikið í 80 ár og því var mjög mikið í Kunene ánni á þessum tíma. Þarna steypist vatnið niður í óteljandi litlum fossum, en ekki er nokkur leið að ná öllum fossunum á eina mynd. Það má kannski segja að þetta séu Hraunfossar hundraðfaldir. epupa falls

Það er yndisleg gönguleið meðfram fossunum, og fáir ferðamenn á þessum tíma. Þeir hafa nú þótt vera lítt aðgengilegir til þessa, en nú er verið að gera stíflu vestan fossanna og því er búið að bæta veginn og auðvelt að komast að þeim. Reyndar eru fjarlægðir miklar, en það fylgir nú alltaf pakkanum í Namibíu.

epupa 8

Epupa 9

Maðurinn á gististaðnum gaf okkur lítilsháttar leiðbeiningar til að finna réttu leiðina. Og bætti svo við.. ég myndi ekki mæla með því að þið færuð að baða ykkur þarna. Einmitt, maður sæi sig í anda fara í sullferð með börnin í þessar ógurlegu flúðir. Enda hafa tveir látið lífið í fossunum síðan við vorum þar.

Epupa 10

 Það sem er svo skemmtilegt er að fossarnir eru auðsjáanlega í hitabeltisumhverfi, þarna má sjá gríðarstór baobab tré á vatnsbakkanum sem hafa staðið vaktina við fossinn um hundruðir ára, og verða vonandi þar um ókomna tíð.

Epupa 12

Epupa 13

 

Epupa 6

Það getur verið erfitt að ganga í hitanum.
Epupa 7

Og því er gott að leggja sig smá inn á milli.

EpupaHalli er reyndar íðilsvalur eins og alltaf.
Epupa 4

Og mæðginin saman.
Epupa 2
Hreinsi allt í einu staddur í myrkviðum Afríku.
Epupa 3

En daglegt líf heldur áfram, hér er verið að þvo þvotta fyrir ofan fossana.

Upp úr aldamótum var ætlunin yfirvalda að byggja stíflu í ána, sem átti að vera sú hæsta í Afríku, og þar með færu fossarnir undir lón. Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök tóku höndum saman við Himbana við að mótmæla þessum fyrirætlunum, sem beindi alþjóðlegu kastljósi að Himbunum. Sú barátta vannst, og er unnið að gerð stíflu neðar í ánni, þar sem minna rask verður fyrir mannfólk og náttúru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvernig er það, er markvisst verið að komast hjá því að birta myndir af manninum þínum á blogginu? Eða er það kannski vegna þess að ég tek allar myndir, eða einfaldlega myndast ekki vel?

Davíð (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 14:36

2 Smámynd: Erla Hlín Hjálmarsdóttir

Haha, mér datt í hug að þú yrðir eitthvað stúrinn, held að ég sé með svosem eina mynd af þér við fossinn í handraðanum, set hana á netið ef þú verður prúður

Erla Hlín Hjálmarsdóttir, 20.5.2009 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband